Hjá Birtunni geta börn og fullorðnir fengið almenna sálfræðiþjónustu, ráðgjöf og meðferð vegna hvers kyns vanlíðunar og álags.
Þjónustan er í boði á Akranesi. Síðar verður hægt að velja milli viðtala á Akranesi og á netinu.
Hjá Birtunni – sálfræðiþjónustu eru ekki gerðar athuganir á vitsmunaþroska barna/unglinga eða formlegar frumgreiningar á þroskafrávikum, ADHD eða einhverfu.
Það er þó sjálfsagt að mæta með slíkar spurningar í viðtal og fá raunhæfar upplýsingar um það hvort ástæða sé til þess að óska eftir slíkri athugun, hjá skólasálfræðingum/sjálfstætt starfandi sálfræðingum sem sinna slíkri greiningarvinnu.
Áhersla er á faglega og hlýlega þjónustu í samræmi við klínískar leiðbeiningar og viðurkennt verklag. Meðferðarleiðirnar sem Lauga notar og hefur þjálfun í eru hugræn atferlismeðferð (HAM) og EMDR. Báðar meðferðarleiðirnar eru mikið rannsakaðar og hafa sýnt fram á gildi sitt. HAMið (á ensku Cognitive Behavioral Therapy – CBT) er til í ýmiskonar útfærslum, fyrir ósértækan og sértækan vanda. EMDR (Eye Movement Desensitization and Reprocessing) er heildstæð sálfræðileg meðferð sem var þróuð til að vinna úr afleiðingum áfalla.
Þær meðferðarleiðir sem Lauga hefur sérstaka þjálfun í, umfram aðrar, eru: Áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð fyrir 3-18 ára (TF-CBT, eftir Cohen, Mannarino og Deblinger), hugræn atferlismeðferð sem kemur inn á harkaleg samskipti í fjölskyldum (val fyrir fjölskyldur; hugræn atferlismeðferð (AF-CBT) og EMDR meðferð sem nýtist í tengslum við hvers kyns vandkvæði, til dæmis áföll.
Fræðast má nánar um þær á eftirfarandi síðum:
Áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð (TF-CBT): til dæmis https://www.nctsn.org/interventions/trauma-focused-cognitive-behavioral-therapy
Val fyrir fjölskyldur; hugræn atferlismeðferð (AF-CBT): https://www.afcbt.org/
EMDR: til dæmis https://www.emdr.is/
Um fjarviðtöl
Á covid tímabilinu þróuðust fjarviðtöl fyrir sértækar meðferðarleiðir hratt og heilmargar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi þeirra. Þær benda í stuttu máli til þess að fjarviðtöl nýtist vel, eins og viðtöl á staðnum, til að bæta líðan skjólstæðinga, bæði barna og fullorðinna.
Meðferðarleiðirnar sem Lauga notar helst hafa verið aðlagaðar að fjarviðtölum og gagnsemi þeirra verið rannsökuð, hvort tveggja með góðum árangri.